Ég er jólabarn. Ég vil hvorki heyra af jólunum né vita hátt í ellefu mánuði ársins, og vei þeim sem spilar jólalög að sumarlagi, en allan desember vil ég helga tilveru mína jólunum og því sem þau standa fyrir. Halda í allar gömlu hefðirnar og skapa nýjar, verja tíma með fjölskyldu, vinum en fyrst og fremst börnum. Ég á góðar minningar af jólahaldi, ævintýralegar. Það gefur því augaleið að jólasögur hafa alla tíð heillað mig. En það er eins með þær og aðrar sögur, sem skrifaðar eru aðallega með börn í huga, að þeim skrifum fylgja kröfur. Börn eru hreinskilnir og oft á tíðum miskunnarlausir lesendur. Dóttir mín, frumburður og minn hvassasti gagnrýnandi, las fyrstu söguna af þeim fjórum sem hér fara á eftir og tilkynnti mér að þetta væri bara virkilega flott saga, ég mætti sko vera stolt. Það varð mér ein helsta hvatningin til að skrifa fleiri jólasögur og gera tilraun til að skapa svokallaðan sagnasveig, en það bókmenntaform er nokkurn veginn miðja vegu milli smásögunnar og skáldsögunnar, með öll einkenni smásagna en heildarblæ skáldsögunnar vegna þeirra tenginga sem eru á milli allra smásagnanna.
Ég ákvað að láta sögurnar hverfast um sama dulmagnaða staðinn: Spákonufellið. Þá eiga þær margt fleira sameiginlegt, sem dæmi má nefna að þær gerast allar sama kvöldið og að í þeim öllum mætast tveir heimar, eða víddir, en þó aldrei með sama hætti. Börn eru í stórum hlutverkum í öllum sögunum en fullorðnar persónur þó aldrei langt undan. Samband barnanna við hina fullorðnu skipar veigamikinn sess í öllum sögunum, rétt eins og hinar ólíku heimilisaðstæður söguhetjanna. Loks þurfa öll börnin í sögunum að ganga í gegnum einhverja lífsreynslu áður en þau geta fengið að njóta jólanna í allri sinni dýrð.
Sögurnar eru allar skrifaðar í 3. persónu í þátíð og sjónarhornið yfirleitt hjá börnum, þó á því séu undantekningar. Í „Hulduheimum“ er sagan sögð samtímis frá sjónarhóli tveggja barna sem eru uppi með rúmlega einnar og hálfrar aldar millibili. Á einum stað brýt ég upp formið og lesendur fá innsýn í hugarheim móður söguhetjunnar, í því skyni að veita upplýsingar sem söguhetjan bjó ekki yfir.
Það var meðvituð ákvörðun að snerta í engu á kristilega þættinum þó að sögurnar fjölluðu um jólin og þau gildi sem eru í hávegum höfð á jólum (og margir myndu reyndar kalla kristin gildi). Spákonufellið, sem allt hverfist um, er auðvitað hundheiðið í sjálfu sér, með allri sinni tengingu við galdramátt Þórdísar spákonu, en hún var landnámskona sem settist þar að og fjallið er kennt við hana. Það er því með ráðum gert að sögurnar hafi yfir sér heiðinn blæ, og meðal annars gætti ég þess að nefna sögupersónur ekki áberandi kristnum nöfnum.
Reyndar má gefa nafngiftum sérstakan gaum, en ég fletti sérstaklega upp merkingu nafna til að vera viss um að þau hæfðu. Sem dæmi má nefna Þórdísi í sögunni „Jólaandanum“, sem dregst að fjallinu sem hún kallar „fjallið sitt“, enda heitir hún í höfuðið á spákonunni. Þar má segja að fyrst sé ýjað að hinum dulmögnuðu tengingum í sögunum. Magnús og Agnes í sögunni „Heima um jólin“ hafa annars vegar nöfn sem ríma (innrími) til að undirstrika að þau eru í hlutverki tvíeykis en minna einnig á Agnesi Magnúsdóttur sem tekin var af lífi í Vatnsdalnum (ekki langt frá sögusvæði jólasagnanna). Sú þurfti að gjalda fyrir glæp sinn dýru verði, þó ekki fari alveg jafn illa fyrir söguhetjunum Magnúsi og Agnesi þegar þau gerast sek um að klifra upp á þak skólans. En þar fyrir utan þýðir Magnús hinn mikli, sem er það sem Þórdís spákona er viss um að hann verði, með tíð og tíma, svo nafnið felur í sér framtíðarspá hans. Í „Nóttinni hans Bjúgnakrækis“ koma nokkur nöfn fyrir, sem dæmi bera systkinin nöfn sem eru einkennandi fyrir þau. Nói merkir langlífur – svo ekki þarf að hafa frekari áhyggjur af heilsufari hans – og Arnbjörg bjargvættur heimilisins, en hún liðsinnir Bjúgnakræki einmitt á áhrifaríkan hátt við björgun bróður síns þrátt fyrir ungan aldur. Þá er hesturinn Víðförull í stóru hlutverki og kallast nafn hans á við viðurnefni drengsins Þorvaldar sem landnámskonan Þórdís spákona fóstraði, en hann fór út í heim og þegar hann kom aftur varð hann fyrsti kristniboði landsins og gekk undir nafninu Þorvaldur víðförli. Að kristniboðinu er reyndar vikið (afar óljóst) í „Heima um jólin“, en þar er Þórdís sögð hugsi eftir að hafa fengið bréf frá Þorvaldi. Talið er að hún hafi í raun verið látin þegar hann kom aftur til Íslands og tók að kristna landsmenn, en ég leik mér að því í sögunni að hún hafi verið búin að heyra fréttirnar frá honum í bréfi og sé því áhugasöm um að framtíðardrengurinn (Magnús) haldi kristin jól.
Ákveðinnar speglunar gætir í þessum hluta þar sem Þórdís spákona mælist til þess að Magnús fari í fóstur til ömmu sinnar og afa, þess fullviss að með réttu atlæti geti orðið mikið úr honum, en hún fóstraði Þorvald einmitt við svipaðar aðstæður, þar sem hann naut ekki ástúðar á heimili sínu og hún sá fyrir að hann yrði mikill maður. Þórdís þótti réttsýn og meðal annars er það þekkt saga að hún hafi afþakkað peningagreiðslu þegar hún þóttist vita að féð væri illa fengið. Endurómur af því er í sögunni þegar hún brýnir fyrir Magnúsi að þiggja aldrei illa fengið fé.
Loks ber að minnast á nöfn söguhetjanna í sögunni „Hulduheimum“. Þar er Bergveig ung stúlka, gædd sömu gáfu og Þórdís spákona fyrrum, sem einnig á sterk tengsl við Spákonufellið. Nafn hennar merkir styrkur bergsins eða vé (helgidómur) bergsins. Nafn Sveins er hins vegar fengið upp úr manntali frá 1860 og vík ég frekar að því hér að neðan.
Það eru ýmis smáatriði í þessum sögum sem heyra sérstaklega til svæðisins og krefjast þess jafnvel að lesandi þekki örlítið til frægustu íbúa þess á fyrri tíð, nefnilega Þórdísar spákonu sem fyrr er getið og Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara sem ólst upp á prestssetrinu Hofi á Skagaströnd.
Jón Árnason er landsmönnum flestum kunnur fyrir það starf sem hann vann í þágu þjóðsagnaarfs okkar Íslendinga. Hann fæddist árið 1819 á Hofi á Skagaströnd og var haldið upp á 200 ára ártíð hans með dagskrá á Hofi og Skagaströnd nú í ágúst. Faðir Jóns, presturinn á Hofi, lést þegar Jón var sex ára gamall og hann fluttist á brott með móður sinni sem gerðist ráðskona á öðrum bæjum innan sýslunnar, fyrst Syðri-Ey og svo Auðkúlu. Jón menntaði sig og vann síðan ötullega að söfnun þjóðsagna meðal ýmissa annarra verkefna. Hann safnaði bæði sjálfur og fékk aðra sér til liðsinnis, og hafði einnig þann háttinn á að senda bréf um land allt þar sem hann útlistaði hvernig sagna hann óskaði að menn myndu safna fyrir sig. Vísun í þetta er í „Hulduheimum“, í þeim hluta sögunnar sem á að gerast snemma á sjöunda áratug 19. aldar, en þar er minnst á að menntamaður hafi óskað eftir því að fá sendar þjóðsögur. Gamla konan á bænum í sögunni hnussar einnig yfir því að fara í heilsubótargöngu, eins og höfðingjarnir. Þar er ég einnig (sem fyrr mjög óljóst) að vísa til Jóns Árnasonar, þar sem líkamsrækt hans (heilsubótargöngur) þóttu mjög sérviskulegar á þessum tíma (ekki ólíkt Þórbergi Þórðarsyni löngu síðar), en hann fylgdi leiðbeiningum skosks læknis vegna heilsukvilla og fannst þær gera sér gott hvað sem aðrir höfðu um það að segja.
Mér til skemmtunar kannaði ég hvaða fólk hefði búið á prestssetrinu Hofi á þeim tíma sem ég hafði hugsað mér að sagan gerðist og notfærði mér nöfn þeirra, en tek það fram að ég þekki að öðru leyti ekki til sögu þessa fólks og sagan því skálduð að öllu leyti. Samkvæmt manntali sem gert var árið 1860 bjuggu á Hofi mæðginin Sveinn Sigurðsson (f. 1854) og Guðrún Sveinsdóttir (f. 1826), en Guðrún var vinnukona á bænum. Þáverandi sóknarprestur og kona hans hétu Magnús Jónsson og Vilborg Sigurðardóttir en á bænum bjó einnig tengdamóðir prestsins sem hét Þorgerður Ingimundsdóttir og var þá 62 ára gömul, elst ábúenda. Þarna bjuggu líka bóndinn Jóhannes Egilsson og kona hans Margrét Guðmundsdóttir, auk barna og búaliðs. Móðir Jóns Árnasonar var enn á lífi á þessum tíma og bjó á Auðkúlu. Ég fékk nöfn Sveins og Þorgerðar að láni úr manntalinu, auk þess sem tengslin á milli Hofs og Auðkúlu eru látin halda sér á þann hátt að systir Sveins í sögunni er orðin vinnukona á Auðkúlu.
Í síðustu sögunni, „Hulduheimum“, er lögð til ákveðin skýring á náttúru huldufólks, en öfugt við hina almennu þjóðtrú kemur huldufólkið ekki út úr hömrunum heldur frá öðrum tíma. Báðar söguhetjurnar töldu hina vera komna úr hulduheimum. Þarna mætast tvær víddir í sama skurðpunkti, og vekur þessi staðreynd upp pælingar um eðli tíma. Ef allt á sér stað samtímis hlýtur ekkert að vera til nema núið – en einmitt í núinu eru allar heimsins fortíðir til, og allar framtíðir. Hvað sem svona heimspekilegum spekúlasjónum líður er það almennt samþykkt að huldufólk komi úr annarri vídd – hvort sem þá er átt við tíma eða rúm.
Í mínum huga snúast jól að miklu leyti um þjóðhætti og siði og því viðbúið að í jólasögunum, sem ekki snúast um kirkju og trú, sé gefinn gaumur að þeim hefðum sem einkenna alþýðumenningu okkar Íslendinga. Þannig eru kerti áberandi í sögunum, mandarínur og greni, kökubakstur og jólatónlist, skógjafir og jólagjafir. Það er vikið að laufabrauði og kæstri skötu, jólaseríum og áhyggjunum af rauðum jólum. Íslendingar hafa löngum óttast að fara í jólaköttinn og sá ótti er undirstrikaður í „Hulduheimum“. Í helli jólasveinanna í „Jólaandanum“ má sjá hvernig þeir geta fylgst með börnunum og við sjáum á skjáunum bæði dæmi um „góð börn og vond“, athæfi sem líklegt er til að verðskulda góða skógjöf og annað sem gæti leitt til þess að viðkomandi fengju kartöflu í skóinn. Samkennd, greiðvikni og gjafmildi eru allt hugtök sem fá pláss í jólasögunum. Loks er það táknrænt að drengurinn í síðustu sögunni, „Hulduheimum“, vilji færa móður sinni gjöf sem annars vegar er manngerð (vettlingar) og hins vegar úr náttúrunni (ametyst).
Auk jólahefðanna er þjóðmenning, eða alþýðumenning, okkar fyrirferðamikil í sögunum. Þjóðsagnaarfurinn, huldufólk og spádómsgáfa, grasalækningar, hannyrðir og aðbúnaður vinnufólks fyrr á tímum. Það glittir einnig í samtímamenningu Skagstrendinga þegar Leppalúði dansar línudans (sem var „þjóðaríþrótt“ Skagstrendinga á meðan Kántrýbær var og hét) og Grýla fer í zumba, sem hefur verið vinsælt sport í þorpinu á síðustu árum, meðal annars kennt af eldhressum kúabónda. Örnefni sem minnst er á ættu allir Skagstrendingar að þekkja. Sögurnar eru rótfastar á Skagaströnd og eins íslenskar og frekast getur orðið. Á sama tíma vonast ég til þess að efni þeirra eigi erindi við börn og jafnvel fullorðna í víðara samhengi.