Höfundar

Ástrós Elísdóttir

Ástrós Elísdóttir er höfundur bókarinnar Jól undir Spákonufelli.

Hún er fædd í Reykjavík þann 4. september 1982. Hún hefur meistaragráðu í ritlist frá Háskóla Íslands og hefur skrifað bæði ljóð, sögur og leikrit, tekið að sér þýðingar (aðallega úr ítölsku og ensku) og gjarnan prófarkalestur. Jól undir Spákonufelli er hennar fyrsta bók.

Ástrós lauk einnig BA-gráðu í leikhúsfræðum frá Università di Bologna á Ítalíu, er menntaður kennari, leiðsögumaður og söngkona og stofnaði og stýrir Barnakór Skagastrandar og sönghópnum Divette. Hún stofnaði ásamt manni sínum fyrirtækið Mosató árið 2020, en það er Mosató sem gefur út Jól undir Spákonufelli.

Síðan sumarið 2015 hefur Ástrós verið búsett á Skagaströnd ásamt fjölskyldu sinni, en áður en hún flutti norður í land var hún fræðslustjóri Borgarleikhússins. Á Skagaströnd hefur hún, svo einhver dæmi séu tekin, tekið að sér djass-, popp- og óperusöng við ýmis tilefni, veislustjórn, heimasíðugerð, starfað við kennslu leiklistar auk ýmissa annarra greina, leikstýrt unglingum og m.a. þýtt söngleiki og gamanverk, tekið að sér námskeiðahald og verkefnastjórnun og unnið að framkvæmd fyrstu barnamenningarhátíðar landshlutans sem er á dagskrá vorið 2022.

Ástrós starfar nú hjá SSNV sem verkefnastjóri Sóknaráætlunar Norðurlands vestra og við atvinnuráðgjöf með sérstaka áherslu á stuðning við menningartengda starfsemi.

Í frítíma sínum ver hún tíma sínum með fjölskyldunni á milli þess sem hún fæst við ótal ólík hugðarefni, henni finnst sérstaklega gaman að fara í leikhús, á tónleika og á listsýningar, prjóna, púsla og búa til hluti í höndunum, syngja, dansa, róla og renna sér á skautum, liggja í sólbaði og brasa í garðinum.

Ástrós er gift Valtý Sigurðssyni sjávarlíffræðingi og á með honum þrjú æðisleg börn.

Tommaso Milella

Tommaso Milella teiknar allar myndir í bókinni Jól undir Spákonufelli og á þessari síðu.

Hann fæddist í Bari á Ítalíu þann 25. ágúst 1965. Teiknihæfileikar hans komu snemma í ljós og hann spændi í sig teiknimyndasögur frá því áður en hann lærði að lesa þær. Þegar hann var 10 ára vann hann sér inn 50.000 lírur fyrir skopmynd sem hann teiknaði af fótboltamanninum Rumenigge og fékk myndina birta í dagblaðinu „L’intrepido“.

Hann er sjálflærður í listinni, þar sem honum bauðst ekki að fara í listnám fyrir utan eitt teiknimyndasögunámskeið í heimabæ sínum, og raunar starfar hann sem lögmaður. Þrátt fyrir það hefur hróður hans sem teiknimyndasöguhöfundur og myndskreytir borist víða og nú alla leið til Íslands, þó hann eigi enn eftir að sækja landið heim.

Árið 1997 var hann tilnefndur til verðlauna sem besti ungi mynda- og sagnahöfundurinn á mikilvægustu teiknimyndasöguhátíð Ítalíu, Lucca Comics. Það var fyrir sögur hans um andhetjuna Don Angelo, mafíuforingja sem best verður lýst sem kynóðum og stjórnlausum af afbrýðisemi. Don Angelo velur sér aðeins samkynhneigða undirmenn sökum afbrýðiseminnar en það nær auðvitað ekki að bjarga honum frá reglulegum og fáránlegum vonbrigðum.

Teiknimyndasögur Tommasos hafa birst í fjölda tímarita: Frigidaire, Tempi Supplementari, Humor, Tomb Raider Magazine, Totem Comics, Mongolfiera, Bzz Cosca, Mondo Mongo, Italia XXII Secolo, Examen og fleirum. Auk þess að myndskreyta annarra verk er hann myndasöguhöfundur sjálfur og hefur skapað ótal persónur. Hann hefur bæði myndskreytt skáldsögur sem og bækur vísindalegs eðlis og teiknað fyrir sumar þeirra kápumyndir, auk þess sem hann hefur myndskreytt vísindaskáldsögutímarit (Isaac Asimov Science Fiction Magazine).

Frá árinu 2001 hefur hann gefið út gamansamar teiknimyndasögur á netinu um lögfræðinginn Peppe di Furia, lágvaxinn og fáfróðan mann sem hefur til að bera alla þá galla sem lögfræðingur gæti mögulega haft. Árið 2017 gaf Editore Giuffrè útgáfan út litla bók fyrir lögfræðinga og aðra fagaðila í lögfræði, með áður óútgefnum sögum um Peppe di Furia, tileinkuðum nethótunum: „Ég hélt þetta væri vírus!“.

Nýjasta verk hans er bókin Jól undir Spákonufelli, sem hann myndskreytti og teiknaði kápumynd fyrir. Bókin er eftir Ástrós Elísdóttur, sem hefur verið stórvinkona hans síðan hún bjó á Ítalíu og nam leikhúsfræði þar.

Tommaso hefur alltaf verið heillaður af víkingum (hann átti meira að segja litlar fígúrur vopnaðar spjótum, skjöldum og öxum sem hann lék sér að þegar hann var lítill) og hefur ómældan áhuga á sögu, hefðum og goðsögnum víkinga og Íslendinga, sem hann hefur verið að kynna sér betur upp á síðkastið.

Hann getur ekki beðið eftir að komast til Íslands (þegar Covid leyfir, auðvitað).